Skuggabox
Söguhetjan Kort Kjögx / Kurt Person er málatferlisfræðingur og uppfinningamaður sem dagað hefur uppi við háskólann í Haparanda í Norður-Svíþjóð yfir andvana doktorsritgerð sinni um contractismus-kenningu Jóns Ólafssonar Grunnvíkings. Hann berst heim til Íslands til að vitja arfs eftir afabróður sinn og tekur þá við æsileg atburðarás þar sem sjaldnast er ljóst hver er lífs og hver liðinn.
Upphaf fyrsta kafla:
Þarna í Hlíð hafði Ættin búið frá landnámsöld. Hér hafði hún þraukað mann fram af manni undir háum fjöllum við hjalandi læk. Heimildir voru óyggjandi fyrir þeirri órofa búsetu og bólfestu í blíðu og stríðu, allt frá því Önundur brauðfótur hafði numið hér land í árdaga og farið eldi um skikann. Stundum hafði þráðurinn að vísu verið að því kominn að bresta, en alltaf bjargast að lokum. Ævinlega þegar sveitungarnir voru farnir að stinga saman nefjum og heyra mátti að jæja þar kom að því, og voru um leið byrjaðir að horfa allt öðrum augum á túnin í Hlíð … hlakksáu fyrir sér óðalið í eyði og hugsuðu sér að fá að nytja hver sína sneiðina … en þá, þá hafði ævinlega á réttu augnabliki kolbítur risið úr öskustó, síðgotungur smogið í heiminn, örverpi klakist út, jafnvel launsonur komið aðvífandi með pappíra upp á vasann ef ekki vildi betur.
Bókin kom út á vegum Gullbringu 1988